Hesteyri

Sigling frá Ísafirði til Hesteyrar er 1 tími og 10 mín. Bújörðin Hesteyri var fyrrum meðal hæst metinna jarða norðan Djúps. Þar hefur verið búskapur frá fornu fari og oft mörg býli. Á Hesteyri var vísir að þorpi. Í kringum 1920-1940 bjuggu þar um 80 manns og var þar verslun, skóli, póstur, sími, læknir og Læknishús. Norðmenn reistu hvalveiðistöð á Stekkeyri árið 1894-1915, en þá gekk í gildi 10 ára bann við hvalveiðum við Ísland.


Árið 1927 keypti fyrirtæki í Reykjavík, sem Kveldúlfur h.f. hét, hvalveiðistöðina af Norðmönnum og breytti henni í síldarbræðslu. Síðan hvarf síldin öll austur á land, og hætti þar með starfsemin á Hesteyri árið 1940. Upp úr því fer fólki að fækka, og fer Hesteyri í eyði árið 1952. Á Hesteyri eru nú 10 hús sem brottfluttir heimamenn og aðstandur þeirra vitja á sumrin. Á Hesteyri er gott að hefja eða enda göngu um Hornstrandir. Þar er gott tjaldsvæði og svefnpokagistingu er hægt að fá í Læknishúsinu þar sem rekið er Kaffihús (sími 456-7183).

Hesteyri er einn fallegasti og rómantískasti staður á Hornströndum. Þar er gott að dvelja og láta sér líða vel, fara í gönguferðir út frá staðnum, og síðast en ekki síst að hlusta á þögnina og náttúruhljóðin sem umvefja þennan stað.

Miðvikudaga, föstudaga og sunnudaga kl. 14 er farið frá Ísafirði og er gengið um gamla þorpið Hesteyri með leiðsögn og endað með kaffiveitingum í Læknishúsinu. Ferð þessi tekur 4-5 tíma.

Vefumsjˇn